English

Ottó Guðjónsson lýtalæknir

Svuntuaðgerð

Ertu að hugsa um svuntuaðgerð?

Abdominoplasty, sem kölluð er „svuntuaðgerð“ á íslensku, er skurðaðgerð sem felst í því að fjarlægja umframhúð og fitu af maganum og herða á magavöðvunum. Þessi aðgerð getur dregið umtalsvert úr umfangi maga sem er framstæður og lafandi. Vert er þó að hafa í huga að eftir verður ör sem getur náð alla leið frá öðru mjaðmabeininu til hins.
Ef þú ert að hugsa um svuntuaðgerð gætu upplýsingarnar hér á vefnum veitt þér grundvallarskilning á aðgerðinni - í hvaða tilfellum hún getur hjálpað, hvernig hún fer fram og við hvaða árangri þú getur búist. Hér er kannski ekki að finna svör við öllum þínum spurningum, þar sem margt er einstaklings-bundið varðandi skurðaðgerðir. Spyrðu lækninn ef þig langar að vita meira um svuntuaðgerð.

Ertu rétti aðilinn til að fara í svuntuaðgerð?

Svuntuaðgerð hentar vel því fólki sem er í þokkalegu formi en hefur áhyggjur af mikilli fitusöfnun á maganum, eða lausri, hangandi húð sem breytt mataræði eða líkamsrækt virðist ekki geta bætt. Aðgerðin hefur reynst einstaklega vel þeim konum sem átt hafa mörg börn og húð á maga hefur tognað mikið (og stundum oft) á meðgöngu. Þá er húðin á eldra fólki oft búin að missa teygjanleika sinn og veldur lafandi maga.
Fólk sem ætlar sér að léttast umtalsvert ætti að fresta aðgerð þar til markmiðinu er náð. Einnig ættu konur sem hyggjast eiga fleiri börn að bíða með aðgerð, þar sem meðgangan getur reynt um of á vöðva sem búið er að stytta.
Hafðu í huga að svuntuaðgerð getur bætt útlit þitt og sjálfstraust en hún þarf ekki endilega að gjörbreyta útliti þínu eða verða til þess að fólk umgangist þig á annan hátt. Áður en þú tekur þá ákvörðun að gangast undir skurðargerð þarftu að endurskoða væntingar þínar og ræða þær vel við lækninn.

Áhættuþættir

Fjöldi af svuntuaðgerðum eru gerðar árlega með góðum árangri. Þegar reyndur lýta- og fegrunarskurðlæknir, með mikla reynslu af slíkum aðgerðum, framkvæmir slíka aðgerð er árangurinn yfirleitt afar góður. Samt verður sjúklingur að gera sér grein fyrir helstu áhættuþáttum.
Vandamál eftir skurðaðgerð, t.d. sýkingar eða blæðing, eru sjaldgæf, en koma fyrir í einstaka tilfellum. Hægt er að lækna sýkinguna með sýklalyfjum o.fl. en sjúklingur getur sjálfur flýtt fyrir bata og fækkað áhættuþáttum með því að hreyfa sig eins fljótlega eftir skurðaðgerð og mögulegt er.
Þú getur dregið úr áhættunni með því að framfylgja nákvæmlega leiðbeiningum skurðlæknis, bæði fyrir og eftir skurðaðgerð, sérstaklega hvað hreyfingu eftir aðgerð varðar.

Að ákveða skurðaðgerð

Við fyrstu skoðun athugar læknir heilsuástand þitt, metur hversu mikil umframfita hefur safnast fyrir á magasvæðinu og kannar áferð húðarinnar.
Láttu lækninn endilega vita hvort þú reykir eða takir inn einhver lyf, bætiefni eða annað - þ.á.m. magnýl eða eitthvað sem hefur blóðþynnandi áhrif. Ræddu opinskátt um væntingar þínar við lækninn. Á sama hátt er hann opinskár við þig varðandi kosti og áhættuþætti aðgerðarinnar.
Ef t.a.m. fitusöfnunin er mest fyrir neðan nafla, gætirðu þurft á minni aðgerð að halda, sem kallast „mini- svuntuaðgerð“.Hins vegar gæti verið kostur að fá minni aðgerð, eða hefðbundna svuntuaðgerð, ásamt fitusogi á mjöðmum eða lærum, til að fá betra vaxtarlag. Og e.t.v. nægir fitusog eitt og sér. Einnig er athugandi hvort betra væri að taka allan hringinn (bolaðgerð). Hver sem kosturinn er, ræðir læknirinn ýmsa möguleika við þig og í sameiningu komist þið að því hvað hjálpar þér best til að fegra útlínur líkamans.

Á meðan á skoðun stendur útskýrir læknirinn hvaða svæfingaraðferð hann kýs að nota, hvar aðgerðin fer fram og hvað hún kostar. Sjúkratryggingar taka ekki þátt í kostnaði vegna svuntuaðgerðar. Efst á síðu.

Undirbúningur fyrir skurðaðgerð

Læknirinn veitir þér ráðleggingar um hvernig þú undirbýrð þig fyrir aðgerðina, m.a. varðandi mat og drykk, reykingar og inntöku lyfja. Yfirleitt gildir sú regla að vera fastandi frá miðnætti daginn fyrir aðgerðina. Ef þú reykir er mikilvægt að hætta að reykja a.m.k. 4 vikum fyrir aðgerð. Forðastu of mikla sól fyrir aðgerðina, sérstaklega á magann, þar sem það getur haft áhrif á batahorfur. Ef þú færð kvef eða einhvers konar sýkingu, þarf sennilega að fresta aðgerðinni.  Gerðu ráðstafanir til að einhver sæki þig á sjúkrastofnunina og sé þér innan handar í 1-2 daga eftir aðgerðina. Ekki gleyma að taka með þér magabelti til þess að vera í eftir aðgerðina. Efst á síðu.

Skurðstofa, svæfing og aðgerð

Aðgerðin er framkvæmd á sjúkrastofnun þar sem sjúklingurinn mætir að morgni aðgerðardags, dvelur á vöknun eftir aðgerð og fer svo heim. Venjuleg svuntuaðgerð tekur um 2-3 klukkustundir eftir því hversu umfangsmikil hún er. Yfirleitt sker læknirinn einn langan skurð frá öðru mjaðmarbeininu að hinu, rétt ofan við lífbeinið. Síðan er annar skurður gerður til að losa naflann frá húðinni í kring.
Næst losar læknirinn um húðina á maganum til að komast að magavöðvunum, strekkir á þeim og saumar þá saman. Þetta styrkir magavegginn og minnkar mittismálið. Síðan er húðin toguð niður og umframhúð fjarlægð. Naflinn er saumaður fastur á nýjan stað. Loks er saumað fyrir skurðinn, umbúðir settar á hann og komið fyrir tveimur drenum sem losa umframvökva af skurðarsvæðinu. Fyrir heimferð ferðu í magabeltið og notar það næstu 6 vikur til þess að styðja við magann. Efst á síðu.

Eftir aðgerðina

Fyrstu dagana eftir aðgerð verður maginn á þér sennilega bólginn og þú finnur líklega fyrir sársauka og óþægindum sem hægt er að stilla í hóf með lyfjum. Læknirinn veitir þér leiðbeiningar um hvernig þú skiptir um umbúðir og hvenær þér er óhætt að fara í sturtu. Enda þótt þú getir e.t.v. ekki rétt fullkomlega úr þér í byrjun skaltu reyna að ganga um eins fljótt og hægt er.
Sauma þarf ekki að fjarlægja þar sem þeir eyðast af sjálfu sér en læknirinn vill yfirleitt fá að líta á þig eftir 7-10 daga til þess að fjarlægja drenin og fylgjast með batanum.
Læknirinn gefur ráð um græðandi krem til að bera á skurðsvæði eftir aðgerð.

. Efst á síðu.

Fullum bata náð

Það getur tekið nokkrar vikur þar til þú hefur náð þér fullkomlega. Ef þú varst í góðu formi fyrir aðgerð, með sterka magavöðva, eru mun fljótari að ná þér. Sumir snúa aftur til vinnu eftir 2 vikur en aðrir þurfa 3 til 4 vikur til að hvíla sig og safna kröftum.
Líkamsrækt getur hjálpað þér að ná bata. Meira að segja fólk sem hefur aldrei stundað líkamsrækt ætti að byrja á því til að draga úr bólgum og styrkja vöðvana. Þó ættirðu að forðast erfiða líkamsrækt þar til þér finnst þú tilbúin(n) til þess – og ekki lyfta neinu þungu í 6 vikur.
Örið eftir skurðinn gæti virst vera að versna fyrstu 3-6 mánuðina, á meðan hann er að gróa, og það er eðlilegt. Þú mátt reikna með að það taki 9 mánuði upp í 1 ár þar til örið verður jafnara og lýsist. Þau hverfa aldrei að fullu en sjást ekki þegar þú ert í flestum fötum, jafnvel í sundfötum (bikini).
Efst á síðu.

Nýja útlitið

Svuntuaðgerð getur valdið ótrúlegri breytingu hjá fólki með slappa magavöðva eða umframhúð. Í flestum tilvikum er árangurinn sýnilegur í fjöldamörg ár ef þú fylgir hollu mataræði og stundar reglulega líkamsrækt.
Ef þú hefur raunhæfar hugmyndir um árangur aðgerðar, sættir þig við að hafa ör til langframa, og ert tilbúin(n) að gefa líkamanum tíma til að jafna sig, gæti svuntuaðgerð verið einmitt svarið fyrir þig.

Ottó Guðjónsson.

Sérgrein:
Lýta- og fegrunaraðgerðir
Aðsetur:
Álfheimar 74, 7. hæð, 108 Reykjavik
Sími:
515 1600
 
Sérgrein:
Lýta- og fegrunaraðgerðir
Aðsetur:
Álfheimar 74, 7. hæð, 108 Reykjavik
Sími:
515 1600