English

Ottó Guðjónsson lýtalæknir

Andlitslyfting

Ertu að hugsa um andlitslyftingu?

Eftir því sem fólk eldist verða áhrif þyngdaraflsins, sólar og streitu sjáanleg á andliti þess. Hrukkurnar á milli nefs og munnvika verða dýpri, kinnarnar fara að slappast og fitufellingar myndast á hálsinum. Andlitslyfting eða rhytidectomy getur ekki stöðvað þetta öldrunarferli. En hún getur „leikið á tímann“ og gert öldrunarmerkin minna áberandi með því að fjarlægja umframfitu, endurmóta vöðvana undir húð og strekkja á húðinni á andliti og hálsi. Andlitslyftingu er hægt að gera eina og sér eða samhliða öðrum aðgerðum, t.d. ennislyftingu, fitusogi eða aðgerð umhverfis augu.
Ef þú ert að hugsa um andlitslyftingu gætu upplýsingarnar hér á vefnum veitt þér grundvallarskilning á aðgerðinni, í  hvaða tilfellum hún getur hjálpað, hvernig hún fer fram og við hvaða árangri þú getur búist. Hér er kannski ekki að finna svör við öllum þínum spurningum, þar sem margt er einstaklingsbundið varðandi skurðaðgerðir. Spyrðu lækninn endilega ef þig langar að vita eitthvað meira.

Fyrir og eftir aðgerð.

Fyrir og eftir aðgerð.

Er andlitslyfting lausnin fyrir þig?

Andlitslyfting hentar því fólki best sem er farið að láta á sjá vegna öldrunar, húðin er farin að síga en hefur enn teygjanleika og beinabyggingin er sterk og greinileg. Flestir sjúklingar eru á aldrinum 40-70 ára en hægt er að framkvæma aðgerðina á eldra fólki með ágætum árangri.
Andlitslyfting getur látið þig virðast yngri og ferskari og aukið um leið sjálfstraust þitt. En hún getur ekki gjörbreytt útliti þínu eða veitt þér aftur heilsu og kraft æskuáranna. Áður en þú ákveður að gangast undir andlitslyftingu skaltu endurskoða væntingar þínar og ræða þær við lækninn.

Áhættuþættir

Þegar reyndur skurðlæknir framkvæmir andlitslyftingu eru hliðarverkanir sjaldgæfar og yfirleitt litlar. Samt geta ýmsir þættir varðandi sjúklinga verið mismunandi, t.d. almennt heilsuástand og græðingamáttur líkamans. Vandamál sem geta komið upp á eru m.a. hematoma (blóðsöfnun undir húðinni sem læknirinn þarf að fjarlægja), skerðing á þeim taugum sem stjórna andlitshreyfingum (yfirleitt tímabundin), sýking og slæm viðbrögð við svæfingu.
Þú getur dregið úr áhættunni með því að framfylgja nákvæmlega leiðbeiningum skurðlæknis, bæði fyrir og eftir skurðaðgerð, sérstaklega hvað hreyfingu eftir aðgerð varðar.

Að ákveða skurðaðgerð

Andlitslyfting er mjög einstaklingsbundin aðgerð. Við fyrstu skoðun athugar læknirinn andlitið á þér, þ.á.m. húðina og beinabygginguna undir henni, og ræðir væntingar þínar. Læknirinn spyr um ýmislegt sem getur haft áhrif á útkomu aðgerðar, t.a.m. ómeðhöndlaðan of háan blóðþrýsting, blóðstorknunarvandamál og fyrri reynslu af örvefjamyndun.     
Láttu lækninn endilega vita hvort þú reykir eða takir inn einhver lyf, bætiefni eða annað, þ.á.m. magnýl eða eitthvað sem hefur blóðþynnandi áhrif. Ræddu opinskátt um væntingar þínar við lækninn. Á sama hátt er hann opinskár við þig varðandi kosti og áhættuþætti aðgerðarinnar.
Á meðan á skoðun stendur útskýrir læknirinn hvaða svæfingaraðferð hann kýs að nota, hvar aðgerðin fer fram og hvað hún kostar. Tryggingastofnun tekur ekki þátt í kostnaði vegna andlitslyftingar. Efst á síðu.

Undirbúningur fyrir skurðaðgerð

Læknirinn veitir þér ráðleggingar um hvernig þú undirbýrð þig fyrir aðgerðina, m.a. varðandi mat og drykk, reykingar og inntöku lyfja. Yfirleitt gildir sú regla að vera fastandi frá miðnætti daginn fyrir aðgerðina. Slepptu því að reykja í a.m.k. 4 vikur fyrir aðgerð; reykingar hindra blóðflæði til húðarinnar og geta haft áhrif á batann. Sé hárið á þér stutt getur verið ráðlegt að láta það vaxa til að fela örin á meðan þau eru að gróa. Fáir þú kvef eða einhvers konar sýkingu, þarf sennilega að fresta aðgerðinni. Gerðu ráðstafanir til að einhver sæki þig á sjúkrastofnunina og verði þér innan handar í 1-2 daga eftir aðgerðina. Efst á síðu.

Skurðstofa, svæfing og aðgerð

Fyrir aðgerð færðu kæruleysissprautu hjá svæfingarlækni og ert síðan svæfð(ur). Andlitslyfting getur tekið margar klukkustundir, sérstaklega ef hún er gerð samhliða annarri aðgerð. Stundum kýs læknirinn að láta nokkrar vikur líða milli aðgerða. Staðsetning skurðanna veltur á andlitsbyggingu þinni en þeir byrja yfirleitt ofan við eyra í hárinu, liggja rétt framan við eyrað og fara síðan aftan við eyrnasnepilinn að hársverðinum þar fyrir neðan. Stundum er líka gerður smáskurður undir hökunni. E.t.v. er fita fjarlægð af hálsi og höku ef þarf. Læknirinn strekkir á vöðvunum og húðinni og saumar síðan fyrir.
Eftir aðgerðina er stundum komið fyrir dreni (lítilli slöngu) bak við eyrað til að hleypa út vökva sem gæti safnast fyrir. Læknirinn vefur sárabindum um höfuðið til að minnka líkur á mari og bólgum. Hann skrifar upp á verkjalyf og e.t.v. sýklalyf til að fyrirbyggja sýkingu, áður en þú ferð af sjúkrastofnuninni. Efst á síðu.

Eftir aðgerðina

Fólki líður yfirleitt ekki mjög illa eftir þessa aðgerð (mikill sársauki eða miklar bólgur eru athugaverðar, hringdu í lækninn ef svo er). Húðin getur verið mjög dofin en það er eðlilegt; þessi doði hverfur á nokkrum vikum eða mánuðum. Ráðlegt getur verið að hafa góða upphækkun undir höfðinu þegar þú liggur og reyndu að hafa hægt um þig til að halda bólgunni í skefjum.
Ef læknirinn setti dren í skurðinn er það fjarlægt eftir nokkra daga. Umbúðir eru yfirleitt teknar eftir 2-5 daga. Ekki láta hugfallast þegar þú lítur í spegil og sérð fölt, marið og bólgið andlitið á þér. Hafðu hugfast að eftir nokkrar vikur verður þú orðin(n) eðlileg(ur) í útliti. Saumarnir hverfa af sjálfu sér. Læknirinn gefur ráð um græðandi krem eftir aðgerðina. Efst á síðu.

Fullum bata náð

Þú ættir ekki að þurfa að vera rúmliggjandi en æskilegt er að taka því rólega fyrstu vikuna eftir aðgerð. Farðu gætilega með andlit og hár, þar sem húðin á þér verður viðkvæm og doðin og virðist ekki hafa neina tilfinningu. Forðastu líkamlega áreynslu, þ.m.t. kynlíf og erfið húsverk, í að minnsta kosti 2 vikur (gönguferðir og teygjur eru í lagi); slepptu áfengi, heitum pottum og gufubaði í nokkra mánuði. Fyrst og fremst skaltu hvíla þig vel og leyfa líkamanum að einbeita sér að því að græða sárin. Í upphafi virðist andlitið á þér einkennilegt. Andlitsdrættir hafa aflagast vegna bólgu og andlitshreyfingar kannski stirðlegar. Mar gæti verið sýnilegt í 2-3 vikur og þú þreytist fljótt. Á þriðju viku mun þér líða mun betur. Flestir eru komnir aftur til vinnu eftir 10-14 daga. Þú getur notað sérstakan farða til að hylja marið á meðan það er að hverfa. Efst á síðu.

Mynd 1

Nýja útlitið

Miklar líkur eru á því að þú verður hæstánægð(ur) með andlitslyftinguna, sérstaklega ef þú hefur hugfast að árangurinn sést ekki strax. Meira að segja eftir að bólga og mar er farið verður hárið við gagnaugun þunnt og húðin virðist þurr og gróf í nokkra mánuði. Karlmenn þurfa oft að raka sig á stöðum sem áður þurfti ekki, t.d. aftan við eyrun. Þú verður með ör eftir andlitslyftinguna en þau sjást yfirleitt ekki fyrir hárinu eða eðlilegum húðfellingu umverfis eyrun. Þau dofna hvort sem er með tímanum og sjást þá varla. Andlitslyfting stöðvar ekki framrás tímans, andlitið á þér heldur áfram að eldast, en áhrifin af aðgerðinni endast lengi. Efst á síðu.

Ottó Guðjónsson.

Sérgrein:
Lýta- og fegrunaraðgerðir
Aðsetur:
Álfheimar 74, 7. hæð, 108 Reykjavik
Sími:
515 1600
 
Sérgrein:
Lýta- og fegrunaraðgerðir
Aðsetur:
Álfheimar 74, 7. hæð, 108 Reykjavik
Sími:
515 1600