English

Ottó Guðjónsson lýtalæknir

Fitusogsaðgerð

Ertu að hugsa um fitusogsaðgerð?

Fitusog eða lipoplasty er aðgerð sem getur hjálpað til við mótun líkamans með því að fjarlægja óæskilega fitu á tilteknum svæðum, m.a. maga, lærum, rassi, mjöðmum, hnjám, höku og hálsi. Á undanförnum árum hefur orðið mikil framför í þeirri tækni sem notuð er til fitusogs og nú er auðveldara en áður að stjórna útkomunni og flýta fyrir bata. Enda þótt fitusog komi ekki í stað heilbrigðs mataræðis og líkamsræktar getur þessi aðferð fjarlægt staðbundna fitu sem virðist alls ekki bifast þrátt fyrir allar hefðbundnar aðferðir til megrunar.
Ef þú ert að hugsa um fitusogsaðgerð gætu upplýsingarnar hér á vefnum veitt þér grundvallarskilning á aðgerðinni - í hvaða tilfellum hún getur hjálpað, hvernig hún fer fram og við hvaða árangri þú getur búist. Hér er kannski ekki að finna svör við öllum þínum spurningum, þar sem margt er einstaklingsbundið varðandi skurðaðgerðir. Spyrðu lækninn endilega ef þig langar að vita eitthvað meira.

Ertu rétti aðilinn til að fara í fitusogsaðgerð?

Fitusog hefur reynst þeim best sem eru nálægt kjörþyngd, með stinna og teygjanlega húð og fitusöfnun á afmörkuðum svæðum. Aldur þinn skiptir ekki meginmáli en því eldri sem við verðum, minnkar teygjaleiki húðarinnar og útkoman er e.t.v. ekki sú sama og hjá yngra fólki með mjög teygjanlega húð.
Hafðu í huga að fitusogsaðgerð getur bætt útlit þitt og sjálfstraust en hún þarf ekki endilega að gjörbreyta útliti þínu eða verða til þess að fólk umgangist þig á annan hátt. Til þess að þú fáir sem mest út úr aðgerðinni þarftu að hafa raunhæfar væntingar um útkomuna. Áður en þú tekur þá ákvörðun að gangast undir skurðargerð þarftu að endurskoða væntingar þínar og ræða þær vel við lækninn.     

Áhættuþættir

Fitusog er yfirleitt áhættulítil aðgerð. Hliðarverkanir eru mjög sjaldgæfar en eru þó algengari eftir því sem meiri fita er fjarlægð. Sérstaklega þarf að gæta að vökvatapi eða lyfjaofnæmi.
Örin eftir fitusog eru mjög lítil og sjást varla, en áferð húðarinnar getur orðið ójöfn hjá eldri sjúklingum. Einnig er hætta á tímabundnum doða eða litbrigðum í húðinni. Þú getur dregið úr áhættunni með því að framfylgja nákvæmlega leiðbeiningum skurðlæknis, bæði fyrir og eftir skurðaðgerð, sérstaklega hvað hreyfingu eftir aðgerð varðar.

Að ákveða fitusogsaðgerð

Við fyrstu skoðun athugar læknir heilsuástand þitt, metur hvar fitusöfnunin er mest og kannar áferð húðarinnar. Hann útskýrir hvaða meðferð hann telur að henti þér best. Ef fitusöfnun er t.d. mest á magasvæðinu gæti verið að svuntuaðgerð henti þér betur en fitusog, eða jafnvel hvort tveggja. Treystu því að læknirinn vill ná sem bestum árangri og hann tekur tillit til öryggis þíns, kostnaðar og hámarksárangurs þegar rætt er um kosti og galla mismunandi aðferða.
Ræddu opinskátt um væntingar þínar við lækninn. Á sama hátt er hann opinskár við þig varðandi kosti og áhættuþætti aðgerðarinnar. Á meðan á skoðun stendur útskýrir læknirinn hvaða svæfingaraðferð hann kýs að nota, hvar aðgerðin fer fram og hvað hún kostar. Sjúkratryggingar taka ekki þátt í kostnaði vegna fitusogs.

Efst á síðu.

Undirbúningur fyrir fitusog

Læknirinn veitir þér ráðleggingar um hvernig þú undirbýrð þig fyrir aðgerðina, m.a. varðandi mat og drykk, reykingar og inntöku lyfja. Yfirleitt gildir sú regla að vera fastandi frá miðnætti daginn fyrir aðgerðina. Ef þú færð kvef eða einhvers konar sýkingu, þarf sennilega að fresta aðgerðinni.
Gerðu ráðstafanir til að einhver sæki þig á sjúkrastofnunina. Ekki gleyma að taka með þér teygjubuxur eða magabelti til þess að vera í eftir aðgerðina.

. Efst á síðu.

Skurðstofa, svæfing og aðgerð

Það fer eftir umfangi aðgerðarinnar hvort eingöngu er notuð staðdeyfing eða sjúklingur er svæfður. Ef mikið fitumagn þarf að fjarlægja, eða aðgerðin er framkvæmd ásamt annarri (t.d. svuntuaðgerð), þarf e.t.v. að framkvæma hana á sjúkrastofnun þar sem sjúklingur er yfir nótt.
Misjafnt er eftir umfangi aðgerðarinnar hversu langan tíma hún tekur. Gerður er örlítill skurður og slöngu rennt inn á svæðið til að sjúga burtu fitulög sem liggja undir húðinni. Ef meira en eitt svæði þarfnast meðhöndlunar, færir læknirinn sig á milli þeirra, brýtur upp fitufrumur og fjarlægir þær. Um leið og fitan er fjarlægð tapast vatn úr líkamanum og því þarf að fylgjast vel með sjúklingnum til þess að hindra vökvatap og fær sjúklingur yfirleitt vökva í æð, bæði á meðan á aðgerð stendur og eftir hana.
Fyrir heimferð ferðu í teygjuumbúðir og notar þær næstu 2-3 vikur til þess að styðja við magann. Eftir þann tíma skaltu nota stuðningsbuxur í u.þ.b. 6 vikur. Efst á síðu.

Eftir aðgerðina

Eftir aðgerðina geturðu búist við að einhver vökvi leki úr skurðunum í u.þ.b. sólarhring. Stundum skrifar læknirinn tilvísun á sýklalyf til að minnka sýkingarhættu.
Ekki reikna með því að líta vel út eða líða fullkomlega vel rétt eftir aðgerð. Þú gætir fundið fyrir sársauka, sting, bólgum og tímabundnum doða. Hægt er að draga úr sársaukanum með lyfjum sem læknirinn skrifar tilvísun á, en samt geturðu verið stíf(ur) og aum(ur) í örfáa daga. Efst á síðu.

Fullum bata náð

Sýndu þolinmæði á leiðinni til fulls bata. Læknirinn ráðleggur þér að byrja að ganga um eins fljótt og hægt er til að minnka bólgumyndun og auka blóðflæði um líkamann.
Eftir 1-2 vikur verður þér farið að líða betur og þú ættir að geta snúið aftur til vinnu örfáum dögum eftir aðgerð. Saumar eru teknir úr eftir u.þ.b. viku. Ekki lyfta þungum hlutum eða stunda erfiðar líkamsæfingar í mánuð eftir aðgerðina. Marblettir og bólgur hverfa yfirleitt innan 3ja vikna en í sumum tilfellum tekur það 6 mánuði eða meira að losna við allar bólgur. Ef þú verður vör/var við óeðlileg einkenni, t.d. mikla blæðingu eða mjög slæma verki, hafðu samband við lækninn.
Efst á síðu.

Nýja útlitið

Fljótlega eftir aðgerðina sérðu mikinn mun á útlínum líkamans. Breytingin verður þó enn sýnilegri eftir 4-6 vikur þegar mesta bólgan er farin. Eftir u.þ.b. þrjá mánuði koma áhrif aðgerðarinnar fullkomlega í ljós og útlínur líkamans verða orðnar jafnari en áður.
Ef væntingar þínar eru raunhæfar, muntu væntanlega verða mjög ánægð(ur) með árangur aðgerðarinnar. Þér ætti að líða betur með sjálfa(n) þig og þú finnur hvað fötin þín klæða þig betur en áður. Með heilbrigðu mataræði og reglulegri líkamsrækt getur þú lagt þitt af mörkum til að halda þér í þessu góða formi.

Ottó Guðjónsson.

Sérgrein:
Lýta- og fegrunaraðgerðir
Aðsetur:
Álfheimar 74, 7. hæð, 108 Reykjavik
Sími:
515 1600
 
Sérgrein:
Lýta- og fegrunaraðgerðir
Aðsetur:
Álfheimar 74, 7. hæð, 108 Reykjavik
Sími:
515 1600